Ég heiti Ingibjörg Ósk og er nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Þegar ég útskrifaðist síðasta vor úr Menntaskólanum í Reykjavík fékk ég iPad að gjöf frá pabba mínum. Í fyrstu ímyndaði ég mér að tækið yrði aðallega mér til skemmtunar en þegar ég byrjaði í háskólanum síðasta haust opnaðist hins vegar allt önnur veröld iPadsins fyrir mér. Hann fór úr því að vera leiktæki og yfir í kennslutæki. Hér eru nokkur öpp sem ég nota í náminu.

GoodReader er app sem les skjöl og gerir þér kleift að glósa inn í PDF og TXT skjöl. Í því geymi ég allar kennslubækurnar ásamt glósum frá kennurunum. Í GoodReader er bæði hægt að glósa með lyklaborðinu og penna. Þá er meira að segja hægt að stækka þann hluta af skjalinu sem þú vilt skrifa á og hvíla hendina á iPadnum á meðan. Þar að auki geturðu tengt GoodReader við Dropbox og því nálgast glósurnar þínar í tölvunni.

Á meðan ég nota GoodReader til þess að glósa inn skjöl sem ég hleð inn í appið þá nota ég appið Notability til þess að glósa eins og flestir gera í stílabók. Appið hefur svipaða eiginleika og GoodReader en í Notability er hægt hafa glósurnar á öðrum formum, t.d. ljósmyndum eða hljóðupptökum. Hægt er að velja um ýmsa liti og mismunandi stærðir af línustrikuðum og rúðustrikuðum bakgrunni. Appið er einnig gætt þeim eiginleika að þú getur auðveldlega komið glósunum þínum yfir í Dropbox, iTunes og jafnvel Twitter ásamt fleirum forritum svo þú getur nálgast glósurnar þínar hvar sem er.

Þegar kemur að hópavinnu í háskólanámi þá koma öppin Dropbox og Google Drive sér mjög vel. Þessi öpp eru það sem kallað er skýjaþjónusta. Sjálf hef ég öll skjöl tengd skólanum vistuð í DropBox svo ég geti nálgast þau þótt ég gleymi tölvunni heima. Google Drive hefur þann eiginlega að margir geta verið að vinna á sama tíma í sama skjalinu sem er algjör snilld þegar meðlimir hópsins geta ekki verið á sama stað í einu.

Auk þessara appa hef ég appið WolframAplha sem er alveg eins og vefsíðan wolframalpha.com. Það virkar þannig að þú skrifar inn stærðfræðijöfnu og upp koma ýmsar upplýsingar um viðkomandi jöfnu. Þá má nefna að fallið er teiknað upp, ræturnar gefnar ásamt afleiðunni o.fl. Þannig að ef maður festist í erfiðri jöfnu eða vill athuga hvort svarið sé rétt þá er mjög þægilegt að hafa WolframAlpha sem sýnir meira að segja skrefin að niðurstöðunni.

Persónulega finnst mér iPadinn þægilegri en þungar kennslubækur. Þá sleppi ég einnig við vesenið að prenta út glósur þar sem ég get alltaf sótt þær í iPadinn og iPad penninn klárast aldrei.  Þegar uppi er staðið kemur iPadinn í veg fyrir bakverki vegna of þungra skólataskna, er umhverfisvænni og miklu þægilegri.


Ummæli

ummæli

Powered by Facebook Comments