Frítt vefnámskeið um alla möguleika þeirra þriðjudaginn 27.okt. kl. 14.00

Í nýrri skýrslu Rannsóknar og Greiningar: Ungt fólk 2015,  kemur fram mikill kynjamunur meðal nemenda í 5. – 7. bekk í bókalestri. Drengir lesa mun síður en stúlkur og spila mun frekar tölvuleiki. Í smáforritum sem Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur hefur gefið út er lögð áhersla á að nýta gagnvirkni smáforrita til að beina áhuga barna frá unga aldri á jákvæðar brautir, bæta orðaforða og undirbúa læsi. Smáforritin eru nú komin í iPhone útgáfu og með þessu framtaki er foreldrum gert auðveldara að hlaða niður forritum sem stuðla að auknum málþroska og undirbúa börn fyrir læsi, beint í símana, hvar og hvenær sem er. Um er að ræða forrit sem sameina leik við hljóðakennslu, undirbúa læsi og réttan framburð. Þau eru Lærum og leikum með hljóðin, Froskaleikur 1, 2 og 3 og Froskaleikur Skólmeistarinn (skólaútgáfa).

„Nú á ekkert að vera því til fyrirstöðu að tugþúsundir uppalenda sem nota iPad eða iPhone geti aðstoðað börnin á markvissan hátt við grunninn að læsi“ segir Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, aðalhöfundur efnisins. „Drengir standa almennt verr að vígi en stúlkur í lestrarundirbúningi. Þeim hentar vel tenging við leik, tækni og hreyfingu, eins og er í smáforritunum. Ég vona því að þetta geri gæfumun fyrir marga“, segir Bryndís. „Til að geta ráðist í iPhone útgáfur fékk ég mikilvægan stuðning frá nokkrum íslenskum fyrirtækjum, sem í verki gerðu okkur kleift að stuðla enn frekar að læsi íslenskra barna með stærri notendahópi“, segir Bryndís. Fyrirtækin sem studdu við gerð iPhone útgáfunnar eru Novator, Norðurál, Hagar, KPMG og HS Orka.

Nýung – Frítt vefnámskeið
Foreldrar og fagfólk geta skráð sig á frítt vefnámskeið til að læra á alla möguleika smáforritanna. Vefnámskeiðið verður þriðjudaginn 27.okt kl. 14.00. Þátttakendur þurfa að skrá sig áður til að fá aðgang í eigin tölvu til að taka þátt.

Þeir sem vilja nálgast forritin sem nú bjóðast á lægra verði geta gert það hér.

 


Ummæli

ummæli

Powered by Facebook Comments